Caruana vinnur Sinquefield Bikarinn – Carlsen stöðvaði sigurgönguna

FabCarSkákin sem heimsbyggðin beið eftir lauk með jafntefli eftir langa og stranga baráttu. Heimsmeistarinn Magnus Carlsen varð fyrsti keppandinn á Sinquefield Bikarnum til að tapa ekki fyrir Fabiano Caruana.

Þrátt fyrir að ná ekki að leggja Magnus að velli þýðir þetta jafntefli að Carlsen getur ekki náð Caruana að vinningum í mótinu og Fabiano því öruggur sigurvegari mótsins með þrjá vinninga í forskot þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. Hann gæti semsagt skroppið í skoðunarferð um Hvíta húsið og komið svo aftur og tekið við verðlaunatékkanum sínum!

Magnus hafði í viðtölum í gær sagt að hann væri betri skákmaður og óttaðist ekki viðureignina við Caruana. Margir biðu því spenntir eftir hvað væri á boðstólnum í skák þeirra. Caruana ýtti e-peði sínu áfram um tvo reiti eins og hann er vanur og Carlsen svaraði með Sikileyjarvörninni. Þar valdi Magnus afbrigði sem Margeir Pétursson beitti oft á sínum keppnisárum, hið svokallaða Maroczy bind í Drekaafbrigðinu.

Afbrigðið þykir nokkuð traust en á tiðum getur verið erfitt fyrir svartan að tefla til vinnings. Margeir sagði eitt sinn um afbrigðið eitthvað á þessa leið:

Í þessum stöðum þarf maður oft að gera ekki neitt, það er bara ekki alveg sama hvernig maður gerir það!

Raunin varð sú að Caruana stóð ávallt aðeins betur í skákinni en tefldi engu að síður af krafti og sótti fram á kóngsvæng með hugmyndum um að sækja að kóngi Carlsen. Þeir fóru loks í endatafl og allan tímann var Caruana með stöðuna á sínu valdi og stóð betur. Carlsen er hinsvegar ekki Heimsmeistari fyrir ekki neitt og hann þvingaði taflið í endatafl með mislitum biskupum þar sem hvorugur gat reynt að tefla áfram til vinnings, því var jafntefli samið.

Þrátt fyrir jafntefið hækkaði Caruana á stigum við þessi úrslit þar sem Carlsen er eini skákmaðurinn stigahærri en hann. Þetta þýðir að Caruana hefur nú náð þriðju hæstu „lifandi“  eló-stigum í sögunni með 2836,1.  Stigalistar eru birtir á mánaðarfresti og því eru stigin hans ekki opinber þannig séð en fara engu að síður í sögubækurnar og úr þessu ekki ólíklegt að hann nái jafnvel hærri opinberum stigum 1. október þar sem enn eru tvær umferðir eftir.

Jafnteflið þýðir jafnframt að loks er hægt að meta frammistöðu Caruana en hún jafngildir nú 3247 elóstigum! Til að skýra örlítið út hvernig slík frammistaða (rating performance) er reiknuð þá segir sú tala í rauninni á hvaða styrkleika skákmaður tefldi mótið. Ef skákmaður teflir 10 skákir við andstæðinga með meðalstig upp á 2700 skákstig og sá skákmaður fær 50% vinninga er hann augljóslega að tefla með styrkleika upp á 2700 stig. Ástæðan fyrir að ekki var hægt að reikna nákvæmlega frammistöðuna fyrir jafnteflið er sú að fullt hús nálgast í raun alltaf óendanleg stig. Ef þú ert með fullt hús og einhver segir að þú sést að tefla með árangur upp á 3400 elóstig, af hverju ekki 4000 segir þá einhver…frammistaðan er einfaldlega ekki mælanleg. Um leið og einhver skák vinnst ekki er hinsvegar hægt að reikna frammistöðuna yfir mótið nákvæmt.

Í öðrum skákum gerðu þeir Levon Aronian og Maxime Vachier-Lagrave jafntefli í mjög skemmtilegri skák úr Philidor vörn þar sem Aronian notaði skemmtilega hugmynd með g4-framrás úr hugmyndbanka Alexei Shirov.

Loks hélt Hikaru Nakamura áfram að eiga ömurlegt mót þegar hann leyfði Veselin Topalov að vinna sig í Berlínarvörn en fram að því hafði Topalov hvorki teflt Berlínarvörn mikið né gengið vel með þá byrjun.

Tvær umferðir eru nú eftir. ljóst er að Caruana hefur unnið mótið en nú er spurningin bara hvernig hann klárar mótið en að veði er mögulega besta mótaframmistaða allra tíma. Nakamura og Aronian bíða handan við hornið, hvernig ritar Caruana lokaorð þessa móts?

Standings_After8

Facebook athugasemdir