Breytingar á skáklögum FIDE 1. júlí 2014 – Hvað þarftu að vita?

Fide_logoÝmsar grundvallarbreytingar voru nýlegar gerðar á skáklögum FIDE sem allir ættu að kynna sér, enda skulu öll FIDE reiknuð mót fylgja þessum nýju reglum. Breytingarnar voru samþykktar á FIDE-þinginu í Tallinn í Eistlandi þann 20. október árið 2013 og tóku gildi þann 1. júlí árið 2014.

Á meðal róttækra breytinga eru reglur um ólöglega leiki, en skv. fyrri reglum tapaðist skák eftir 3 ólöglega leiki í at- og kappskák en samstundis í hraðskák. Þessu hefur verið breytt á þann veg að nú tapast kappskákir eftir tvo ólöglega leiki og samstundis í hrað- og atskák.

Þá hefur verið hert á reglum um notkun raftækja, en nú er mögulegt og reyndar skylt að refsa keppendum með tapi sjáist þeir með raftæki á skákstað, jafnvel þótt slökkt sé á þeim – Nokkuð svigrúm er þó fyrir mótshaldara að útfæra regluna og beita vægari refsingum, en slíkt skal ávallt auglýst eða tilkynnt við upphaf móts.

Þá er bætt við heimildum/skyldum skákstjóra til inngrips við ýmsar aðstæður.

Mikilvægt er að þekkja muninn á skákstað (playing venue) og skáksal (playing area) við lestur laganna. Skákstaður er skilgreindur sem: Hvíldarherbergi, klósett, veitingasvæði, reyksvæði og önnur svæði skilgreind af skákstjóra (gr. 11.1 og 11.2). Skáksalur er svo aftur svæðið þar sem er teflt. Reglur um síma og raftæki gilda t.d. á skákstað, ekki eingöngu í skáksal.

Mikilvægustu breytingarnar eru:

  • Ný regla um hvernig skal taka upp mann fyrir peð.
  • Reglum um raftæki hefur verið breytt
  • Zero tollerance reglan svokallaða hefur verið felld úr lögunum
  • Kappskák tapast eftir tvo ólöglega leiki og at- og hraðskák tapast samstundis (við fyrsta)
  • Skákstjórar skulu nú stöðva at- og hraðskákir og úrskurða falli keppandi á tíma eða leikur ólöglegum leik
  • Viðbótartíma skal bætt við at- og kappskákir sem eru tefldar án viðbótartíma.

Breytingarnar í heild:

Peðin eru sál skákarinnar - Philidor

Peðin eru sál skákarinnar – Philidor

I. Reglur um hvernig skal taka upp mann. Nýtt!

4.6.
Heimilt er að taka upp mann með fleiri en einum hætti:
Ekki er gerð krafa um að peðinu sé leikið á áttundu reitaröðina. Heimilt er að fjarlægja peðið og setja nýjan mann á reitinn í hvaða röð sem er.
Standi taflmaður andstæðingsins á uppkomureit peðsins, skal hann fyrst drepinn.

4.7.
Þegar, löglegum leik eða hluta af löglegum leik hefur verið leikið, og manni sleppt á reitinn þangað sem honum var leikið, er óheimilt að leika manninum á annan reit í yfirstandandi leik. Leikurinn skoðast sem búinn þegar:
[…] manni hefur verið sleppt á uppkomureit peðs og peðið hefur verið fjarlægt af sama reit.

7.5a

Hafi leikmaður leikið peði upp á 8. reitaröð og ýtt á klukkuna án þess að skipta peðinu fyrir mann, er leikurinn ólöglegur. Peðinu skal þá skipt út fyrir drottningu af sama lit og peðið.

[Lokamálsliðurinn gildir augljóslega aðeins í kappskák ,enda tapast at- og hraðskákir samstundis. aths. höfundar]

 

Niðurstaða: Nú er engum vafa undirorpið hvernig hegða skuli upptöku manna þegar peði er leikið upp á 8 reitaröð og hvaða maður skal koma í þess stað. Sé leikurinn ólöglegur [kappskák], skal taka upp drottningu – ekkert annað.

Bannað!

Bannað!

II. Raftæki. Breyting!

11.3b
Óheimilt er að hafa síma og/eða hverskonar raftæki sem hægt er að nota sem samskiptatæki á skákstað. Komi í ljós að keppandi sé með slíkt tæki á skákstað, skal hann tapa skákinni. Andstæðingurinn skal vinna skákina.

[Mikilvægt að taka það fram, því mögulega gætu báðir tapað eða annar fengið skráð jafntefli. Sem dæmi er þá ekki útilokað að keppandi sé ekki mættur en vinni samt skákina. aths höfundar.]

 

Mótshaldara er heimilt að skilgreina aðrar, vægari refsingar.

Skákstjóri getur krafist þess að leitað skuli á keppanda, í fötum, tösku eða hverju sem hann hefur meðferðis; skal slík leit fara fram í einrúmi. Skákstjórinn sem sér um leitina eða aðstoðarmaður sem hann kallar til skal vera af sama kyni og sá sem leitað er á. Neiti keppandi samvinnu vegna slíkrar leitar, skal skákstjóri grípa til ráðstafana sbr. gr. 12.9.

[Skal er afdráttarlaust hugtak sem veitir ekki svigrúm til túlkunar. Grein 12.9 fjallar um refsiheimildir skákstjóra sbr. áminning, bæta við tíma andstæðings, minnka tíma keppanda, breyta úrslitum keppanda í óhag þmt. dæma jafntefli þrátt fyrir að andstæðingur hafi tapað, úrskurða skákina tapaða, sekt sem tilkynnt var um í reglum keppninar, brottrekstur úr móti. aths. höfundar]

 

Niðurstaða: Þessi breyting kemur líklega til að hafa mest áhrif á hinn venjulega keppanda. Sérstaklega þegar mótshaldarar ákveða að beita reglunni til fulls sbr. 1. mgr.. Hafa verður í huga að hægt er að tapa skák fyrir það eitt að halda á raftæki eða hafa slík tæki innanklæða, jafnvel þótt slökkt sé á þeim eða verið sé að slökkva á þeim eftir að skák hefst.

Zero_Tolerance_logo(web)III. Zero tollerance reglan. Breyting!

6.7.a
Skilgreint skal fyrirfram í reglum mótshaldara hvenær skák tapast ef keppandi mætir ekki (seint) til leiks. Keppandi sem mætir til leiks, eftir að fresturinn til að mæta rennur út skal tapa skákinni ákveði skákstjóri ekki annað.

[Reglan opnar á að skákstjóri geti tekið tillit til óvæntra atvika sýnist honum svo. Krafa hlýtur að vera gerð um að slíkt atvik sé með öllu ófyrirsjáanlegt og trúverðugt. Aths höfundar]

 

Niðurstaða: Um er að ræða smávægilega breytingu frá fyrri reglu, sem sérstaklega skilgreindi frestinn sem núll mínútur; þ.e. skák tapaðist ef keppandi var ekki mættur við upphaf skákar [zero tollerance]. Áhugavert er ef upp kemur að mótshaldari gleymir að setja slíka reglu fyrir upphaf móts þá gildir í raun engin regla nema auðvitað klukkan – tíminn til að ljúka skákinni. Ekkert kemur í veg fyrir að mótshaldari ákveði að notast við 0 mínútur.

illigal_moveIV. Skák tapast eftir tvo ólöglega leiki. Breyting!

7.5.b
Hafi keppandi leikið ólöglegum leik og farið hafi verið með atvikið sbr. gr. 7.5a – skal skákstjóri bæta tveim mínútum við tíma andstæðingsins; leiki keppandi ólöglegum leik öðru sinni skal skákstjóri úrskurða skákina tapaða.
Skákin skal þó úrskurðuð jafntefli, sé staðan þannig að andstæðingur þess brotlega geti ekki mátað kóng hans með löglegum aðferðum/leikjaröð.

Niðurstaða: Breytingin er þónokkur frá fyrri reglu, en áður gilti regla um tap eftir þrjá ólöglega leiki. Hafa ber í huga að reglunni verði ekki beitt nema krafa hafi áður verið gerð vegna ólöglegs leiks, þ.e. jafnvel þótt ólöglegum leik hafi verið leikið áður þá er ekki sjálfgefið að krafa hafi verið gerð í það skiptið.

domari_stoppaV. Skákstóri skal stöðva skák falli keppandi á tíma eða ólöglegum leik hafi verið leikið í at- og hraðskák. Nýtt!

Gr. A.4b.
Ólöglegum leik er lokið þegar keppandi hefur ýtt á klukkuna. Verði skákstjóri var við að ólöglegum leik hafi verið leikið, þá skal hann úrskurða skákina tapaða þeim er það gerði, að því gefnu að andstæðingurinn hafi ekki sjálfur leikið. Stöðvi skákstjóri ekki skákina, er keppanda sem áður heimilt að krefjast vinnings, hafi hann sjálfur ekki leikið og ýtt á klukkuna. Þrátt fyrir það skal skákin úrskurðuð jafntefli ef staðan er þannig að ekki sé hægt að máta kóng þess brotlega með löglegri leikjaröð. Krefjist keppandi ekki vinnings og skákstjóri aðhefst ekkert, skal skákin halda áfram. Leiki sá sem átti slíka kröfu, er óheimilt að laga ólöglegu stöðuna nema keppendur semji sjálfir um slíkt án atbeina skákstjóra.

Niðurstaða: Stóra breytingin er sú að reglur um hrað- og atskák hafa nú verið samræmdar að mestu. Það þýðir t.d. að skák tapast samstundis eftir ólöglegan leik í atskák. Þá hafa skyldur skákstjóra verið útfærðar nánar og nú er krafa um bein afskipti af hrað- og atskákum í tilfelli ólöglegra leikja og þegar keppandi fellur á tíma. Áður var skákstjóra óheimilt að hafa afskipti af skákum, nema krafa um slíkt hafi verið gerð af keppanda.

changes-resized-600VI. Aðrar breytingar. Breyting!

Fleiri minniháttar breytingar tóku gildi þann 1. júlí 2014. Þær eru:

  • Sé keppandi ófær um að leika, skrifa leiki og/eða ýta á klukkuna, má aðstoðarmaður hans gera það fyrir hann. Gr. 4.9.
  • Sé krafa gerð á forsendum þrefaldrar endurtekningar eða 50 leikja reglunnar, er skákstjóra heimilt að stöðva kukkuna, ekki eingöngu keppanda. Gr. 9.5
  • Keppendur geta nú áfrýjað öllum ákvörðunum skákstjóra, jafnvel þótt skorblöðin hafi verið undirrituð. Gr. 11.10.

VII. Grein 9.6.. Nýtt!

9.6.
Gerist annað eða bæði af eftirfarandi, skal skákin úrskurðuð jafntefli:
Hafi sama staðan komið upp amk. fimm sinnum með sömu eða mismunandi leikjaröð beggja keppenda sbr. gr. 9.2.b
Báðir keppendur hafi leikið 75 leiki án þess að peði hafi verið leikið eða maður drepinn. Sé síðasti leikur mátleikur, skal mátið gilda.

Niðurstaða: Hugtakið „skal“ (skákin úrskurðuð jafntefli) veitir ekkert svigrúm til túlkunar – Skákin skal úrskurðuð jafntefli komi annað eða bæði atvikin fyrir í skák; M.ö.o. skákstjóri skal stöðva skákina og úrskurða jafntefli án kröfu, en keppandi getur líkt og áður krafist jafnteflis eftir 50 leiki eða þrefalda endurtekning.

finish-lineVIII. Skáklok. Nýtt!

Þá hefur veirð bætt við nýrri grein vegna (quickplay finish) skákloka, þ.e. þegar skákinni skal lokið án frekari viðbótartíma. Reglan gildir aðeins um kappskákir og atskákir þegar engin viðbótartími er pr. leik en gildir ekki um hraðskákir.

Ef sá sem á leik á minna en tvær mínútur eftir á klukkunni, getur hann krafist þess að 5 sekúndna viðbótartíma eða tímatöf (time delay) verði bætt við tíma beggja keppenda, sé það á mögulegt. Jafngildir slík krafa jafnteflisboði. Sé boðinu hafnað og skákstjóri samþykkir beiðni um viðbótartíma, skal klukkan stillt með þeim tíma sem eftir var að viðbættum viðbótartíma – Andstæðingur þess er lagði fram slíka kröfu skal fá tvær auka mínútur og skákinni skal haldið áfram.

Niðurstaða: Reglan er augljóslega sett til að koma í veg fyrir að menn falli á tíma í at- og kappskákum sem tefldar eru án viðbótartíma pr. leik. Þá skal hafa í huga að „sé það mögulegt“ skal túlka á þann veg að það sé tæknilega mögulegt, þ.e. ef teflt er með búnaði sem hægt er að stilla með slíkum hætti. Ef teflt er með gamaldags klukkum er það augljóslega ekki hægt og skal þá hafna beiðninni – andstæðingur þess sem krafðist skal þrátt fyrir það fá tvær aukamínútur til viðbótar við sinn tíma.

Facebook athugasemdir