BÓNUSMÓTIР

Veðrið á Grænlandi kemur í ögn stærri skömmtum en maður á að venjast. Stórbrotin náttúran býður ekki upp á neitt hálfkák og víst er að veðurguðirnir hér eru ekki ákvörðunarfælnir.
Samkvæmt mælingum leiðangurmanna þá hafði bætt í snjóinn sem nam u.þ.b. 90cm síðan í gærkvöldi. Ef aukakíló leiðangursins hefðu verið fleiri hefði verið allsendis óvíst hvort meðlimir Hróksins hefðu komist útúr húsi, enda hafði fennt fyrir miðja útidyrahurðina og einungis náðist að opna smá rifu.

Eftir að útgengismál höfðu verið afgreidd fóru Skáktrúboðar Hróksins í messu öllu eldra trúboðs og reyndu að setja hversdagsmálin í ögn stærra samhengi. Fámennt var í þessari morgunmessu, en eftirmiðdagsmessan er víst öllu fjölsóttari.

Þó að á köflum hafi ekki sést handa skil í dag, þá mættu rúmlega fjörutíu veðurbarin ungmenni á Bónus páskaeggjamótið. Róbert Lagerman stjórnaði þar af sinni alkunnu lipurlegu festu og naut hann liðsinnis Knud Eliassen sem snaraði völdum setningum yfir á grænlensku. Konkordie Simonsen var skipuð aðstoðarskákstjóri , en þessa knáa 10 ára stúlka stóð sig með einstakri prýði og steig ekki feilspor í utanumhaldi og innslætti úrslita einstakra skáka.

Gleðin og eftirvæntingin var allsráðandi í Ittoqqortoormiit í dag. Margar skemmtilegar skákir voru tefldar og dagljóst er að skákin hefur náð traustri fótfestu hér á 72. breiddargráðu. Allir þátttakendur voru svo leystir út með páskaeggjum í boði Bónus. Að móti loknu mátti sjá glaðbeitt börn á heimleið gæða sér á páskaeggjum í hífandi stórhríð.

.


Created with flickr slideshow.

Facebook athugasemdir