Eftir að útgengismál höfðu verið afgreidd fóru Skáktrúboðar Hróksins í messu öllu eldra trúboðs og reyndu að setja hversdagsmálin í ögn stærra samhengi. Fámennt var í þessari morgunmessu, en eftirmiðdagsmessan er víst öllu fjölsóttari.
Þó að á köflum hafi ekki sést handa skil í dag, þá mættu rúmlega fjörutíu veðurbarin ungmenni á Bónus páskaeggjamótið. Róbert Lagerman stjórnaði þar af sinni alkunnu lipurlegu festu og naut hann liðsinnis Knud Eliassen sem snaraði völdum setningum yfir á grænlensku. Konkordie Simonsen var skipuð aðstoðarskákstjóri , en þessa knáa 10 ára stúlka stóð sig með einstakri prýði og steig ekki feilspor í utanumhaldi og innslætti úrslita einstakra skáka.
Gleðin og eftirvæntingin var allsráðandi í Ittoqqortoormiit í dag. Margar skemmtilegar skákir voru tefldar og dagljóst er að skákin hefur náð traustri fótfestu hér á 72. breiddargráðu. Allir þátttakendur voru svo leystir út með páskaeggjum í boði Bónus. Að móti loknu mátti sjá glaðbeitt börn á heimleið gæða sér á páskaeggjum í hífandi stórhríð.
Created with flickr slideshow.