
Meistarinn. Paulus Napatoq tekur við verðlaunum úr hendi Joey Chan frá Hróknum.
Blindi pilturinn Paulus Napatoq hefur farið á kostum á skákhátíð Hróksins og KALAK í Ittoqqortoormiit, afskekktasta þorpi Grænlands, sem hófst á miðvikudag og lýkur á morgun með ,,Degi vináttu Íslands og Grænlands“. Á laugardag varð Paulus efstur 40 keppenda á Norlandair-meistaramóti bæjarins, sigraði í öllum skákum sínum og tryggði sér meistaratitilinn 2017.
Ittoqqortoormiit er við Scoresby-sund á 70. breiddargráðu, tæplega þúsund kílómetra frá næsta byggða bóli, og eru íbúar á fimmta hundrað. Þetta er ellefta árið í röð sem Hróksliðar standa fyrir hátíð í Ittoqqortoormiit, og má segja að hvert einasta barn í bænum kunni að tefla.
Hátíðin hófst á miðvikudag með heimsóknum Hróksliða í leikskólann og elliheimilið í bænum með gjafir frá prjónahópum Gerðubergs og Rauða krossins í Reykjavík. Á fimmtudag tefldi Róbert Lagerman fjöltefli við liðlega 40 keppendur, og náðu þrír

Fjölmörg börn taka þátt í myndasamkeppni Pennans og Hróksins. Þessi snót nýtur aðstoðar Jóhannesar, sem er lukkudýr hátíðarinnar.
jafntefli gegn meistaranum. Á föstudaginn var svo komið að Bónus-mótinu, þar sem allir keppendurnir fengu páskaegg. Þar sigraði Paulus Napatoq eftir æsispennandi úrslitaskák, og hefur því unnið sigur á báðum stórmótum hátíðarinnar.
Paulus var 15 ára þegar hann lærði að tefla í fyrstu heimsókn Hróksliða til Ittoqqortoormiit ári 2007 og náði á örskömmum tíma undraverðum árangri. Hann hefur tvisvar komið til Íslands að tefla, m.a. á Skákhátíð í Árneshreppi.
Leiðangursmenn Hróksins eru Róbert Lagerman, Máni Hrafnsson og Joey Chan. Fjölmargir leggja Hróknum og KALAK lið við framkvæmd hátíðarinnar, m.a. Norlandair, Flugfélag Íslands og Air Greenland, sveitarfélagið Sermersooq, Bónus, Úrsus, Mannvit, Ísspor, Penninn, Brim, Steinegg, Grænn markaður og Bílaleiga Akureyrar.
Páskahátíðin í Ittoqqortoormiit er 2. verkefni Hróksins á Grænlandi 2017. Í febrúar hélt Hrókurinn Polar Pelagic-hátíðina í Kulusuk og Tasiilaq, nú í maí verður skákhátíð í Nuuk og fleiri hátíðir eru á teikniborðinu.
- Horft yfir Ittoqqortoormiit. Afskekktasti bær Grænlands, næstum þúsund kílómetrar í næsta byggða ból.
- Ittoqqortoormiit er stundum kallaður Ísbjarnarbærinn.
- Meistarinn. Paulus Napatoq tekur við verðlaunum úr hendi Joey Chan frá Hróknum.
- Ellen Napatoq er meðal dyggustu liðsmanna Hróksins á Grænlandi. Hún var heiðruð við upphaf hátíðarinnar.
- Skákgleði í afskekktasta bæ Grænlands.
- Ung og efnileg í Ittoqqortoormiit.
- Fjölmörg börn taka þátt í myndasamkeppni Pennans og Hróksins. Þessi snót nýtur aðstoðar Jóhannesar, sem er lukkudýr hátíðarinnar.
- Skák er skemmtileg!
- Með sigurmerki og bros á vör á Bónusmótinu.
- Krakkarnir í Ittoqqortoormiit þyrptust í fjöltefli við Róbert.
- Glatt á hjalla!
- Börnin í leikskólanum fengu prjónaflíkur og páskaegg í heimsókn Hróksliða.
- Stoltur með gullpening eftir jafntefli við Róbert í fjölteflinu.