ÆSKAN & ELLIN XI.   –  OLÍS-MÓTIÐ Í SKÁK

aeskan

Það var kátt í höllinni og mikið um dýrðir í skákmiðstöð TR í Faxafeni á laugardaginn var þegar skákhátíðin Æskan & Ellin fór þar fram. Um 80 keppendur mættir til að brúa kynslóðabilið í hvítum reitum og svörtum.  Annars vegar um 31 eldhressir ellismellir  60 ára og eldri og hins vegar uppvaxandi æskumenn, meistarar framtíðarinnar, 15 ára og yngri. 

Þetta var í annað sinn sem RIDDARINN, skákklúbbur eldri borgara og Taflfélag Reykjavíkur héldu mótið saman. Áður var  mótið haldið í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, sem heiti mótsins var áður kennt við, þar sem liðsmenn Riddararns hittast til tafls á miðvikudögum allan ársins hring. Það var Sr. Gunnþór Ingason, fyrrv. sóknarprestur sem hafði frumkvæði að mótinu sem hluta af 90 ára afmælishátíðarhöldum kirkjunnar árið 2004 í samstarfi við þá Hrafn Jökulsson, forseta Hróksins og Einar Ess, fv. forseta SÍ, sem þá var þegar í forystu Riddarans ásamt fleirum.

2014 ÆSKAN OG ELLIN6

ÆSKAN OG ELLIN 2014 - Guðni Ágústsson setur mótið með þrumuræðu 26.10.2014 10-41-48Til að tryggja að mótið sem vaxið hafði mjög af umfangi og vinsældum yrði fest í sessi til framtíðar var brugðið á það ráð að fá TR, elsta og eitt öflugasta taflfélag landsins,  til samstarfs.  Ennfremur var leitað til hins rótgróna fyrirtækis á landsvísu Olíuverzlunar Íslands, betur þekkt sem OLÍS, um að gerast aðalstyrktaraðili þess. Var 3ja ára styrktar- og samstarfssamningur þar um gerður í fyrra.

Verðlaun í mótinu voru mjög aukin frá því sem áður var, bæði aðalverðlaun þess og eins aldursflokkaverðlaun. Sigurlaunin voru 50.000 krónur, 25.000 fyrir annað sætið og 15.000 fyrir það þriðja. Auk þess sem veitt voru aukaverðlaun til skákdrottningar mótsins. Fyrstu verðlaun í aldursflokkum ungmenna voru gjafabréf frá OLÍS fyrir flugmiðum með Icelandair á mót erlendis en úttektarkort fyrir eldsneyti fyrir gamlingjanna. Bókaútgáfan URÐUR  veitti bókaverðlaun og POINT á Íslandi –  gaf alla verðalaunagripi, aukavinningar voru frá LITLU KAFFISTOFUNNI við Suðurlandsveg, íslensk kjötsúpa fyrir tvo og kaffi með pönnukökum í eftirrétt. Allir krakkarnir voru svo leystir út með fræðsluefni, nýjum bæklingi um endatöfl eftir Björn Jónsson, formann TR.

ÆSKAN OG ELLIN - Guðni Ágústsson leikur fyrsta leikinn  26.10.2014 11-37-55.2014 11-37-55 26.10.2014 11-38-00.2014 11-37-55Að loknum inngangsorðum Einars S. Einarssonar, formanns  mótsnefndar og Riddarans, setti Guðni Ágústsson, fyrrum ráðherra, mótið með formlega með innblásinni þrumuræðu, eins konar óð til skáklistarinnar, þar sem hann undirstrikaði  uppeldislegt og þroskandi gildi skákarinnar yfir hina uppvaxandi æsku og  félagslega þýðingu og hollustu hennar fyrir þá sem eldri eru. Skákstjóri mótsins hefur frá upphafi verið Páll Sigurðsson, núv. formaður Taflfélags Garðabæjar og svo var einnig nú. Þá studdu ÆSIR,  skákmenn úr hinum skákklúbbi eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu, mótið með þátttöku sinni.

Eftir að Páll hafði útskýrt reglur og keppnisfyrirkomulag mótsins og parað í fyrstu umferð lék Guðni Ágússton fyrsta leikinn fyrir  Braga Halldórsson (64) í skák hans við Ottó Bjarnar Arnar, með aðstoð Sverris Gunnarssonar, elsta keppandans 87 ára og þess yngsta Iðunnar Helgadóttur 6. ára.  Nokkur tár á hvarmi sáust í fyrstu umferðunum hjá yngstu keppendunum en þó miklu fleiri bros enda var það gleðin og gamanið sem ríkti að mestu í þéttsetnum skáksalnum á hverju sem gekk.

ÆSKAN OG ELLIN 2014  Aldursflokkaúrslit     ESE-KM 27.10.2014 14-12-35 2...

ÆSKAN OG ELLIN 2014 - Sigurvegararnir -ESE-KM 26.10.2014 11-13-40 26.10.2014 11-13-40.2014 11-13-40Að lokinni tvísýnni keppni þar sem „hart var barist og hart var varist“  stóð hinn valinkunni meistari BRAGI HALLDÓRSSON uppi sem sigurvegari með 7.5 vinninga af 9 mögulegum. Var þetta í þriðja sinn á fjórum árum sem hann vinnur mótið.  Guðfinnur R. Kjartansson var jafn honum að vinningum og Sævar Bjarnason þriðji.  Sérstaka athygli vakti yngissveinninn VIGNIR VATNAR STEFÁNSSON, 11 ára, sem náði 4.-6, sæti áamt þeim öldnu kempum Jóhanni Erni Sigurjónssyni og Þór Valtýssyni.  Mörg önnur„undraverð ungstirni“ náðu góðum frábærum árangri og má þar sértaklega nefna, Nansý Davíðsdóttur  í 6.-8. sæti, Felix Steinþórsson og Óskar Víking Davíðsson, sem urðu efstir í sinum flokkum. Allir þessir krakkar unnu sér inn farmiða á mót erlendis.

Sjá má nánari úrslit á meðf. yfirlitum og vettvangsmyndum, ennfremur á vefsíðunni Chess-Results.  Aðra grein um mótið er einnig að finna á heimasíðu TR og á Facebook.

 -BROT ÚR SETNINGARÁVARPI GUÐNA ÁGÚSTSSONAR :

GUÐNI FÓR Á KOSTUM 28.10.2014 20-58-22Kæru riddarar, æsir og ásynjur, gleðilega hátíð!

Ísland farsælda frón …

Æska og ellin, drengir og stúlkur, allir eru jafnir þegar mannvitið er annars vegar við skákborðið.

Skákin er listgrein, skákin er íþrótt, sem auðgar hugann til andans verka.

Ef æskan þér réttir örvandi hönd ertu á framtíðarvegi ..

Skákin er öndvegisíþrótt fremstu þjóða heims ……..

Friðrík Ólafsson var stjarna æsku minnar.

Ég minnist þess þegar faðir okkar kom eitt sinn inn í baðstofuna með tafl og taflmenn og sagði við okkur strákana  að nú gætum við hætt að slást og byrjað að gera eitthvað að viti.

Þau voru ófá heimsmeistarareinvígin sem við bræðurnir á Brúnastöðum telfdum eftir það.

Nafn Bobby Fischers mun lifa í þúsund ár eins og  æskvinar míns og félaga Gunnars á Hlíðarenda.

Sá sem á skákina að ævivini þarf ekkert að óttast – því fögur sál er altaf ung undir silfurhærum.

Guðni lauk ræðu sinni með því að hvetja æskuna til  skáksigra fyrir íslenska þjóð.

Og bætti svo við: Ef ég hefði fengið þá þjálfum sem ungir drengir fá í dag hefði ég orðið betri skákmaður og stjórnmálamaður … og er þá mikið sagt !!

Facebook athugasemdir