100 bestu í heiminum: Rússar eiga langflesta en Norðmaður trónir á toppnum – Íslendingar langt frá því að komast á blað

TH23_CARLSEN_1661565f

Magnus Carlsen. Langefstur á heimslistanum.

Af 100 stigahæstu skákmönnum heims á lista FIDE frá 1. ágúst eru 25 Rússar. Hið gamla stórveldi virðist þannig standa traustum fótum, þótt það skyggi óneitanlega á gleðina að þeirra stigahæsti maður, Alexander Grischuk, er aðeins í 4. sæti  — á eftir Norðmanni, Armena og Ítala. Við rýndum í listann yfir 100 stigahæstu skákmenn heims.

Magnus Carlsen trónir á toppnum með 2877 skákstig en í 100. sæti er búlgarski stórmeistarinn Aleksander Delchev með 2655 stig.

Til samanburðar er Hannes Hlífar Stefánsson, sem teflir á 1. borði fyrir Ísland á Ólympíuskákmótinu, með 2536 stig, sem skilar honum sæti 514 á heimslistanum.

Alls eiga 29 lönd fulltrúa á lista hundrað stigahæstu. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að íslenskir skákvíkingar láti aftur að sér kveða meðal hinna allra bestu…

Úkraínumenn eiga næstflesta meistara á listanum eða níu. Þar fer hinn óútreiknanlegi Ivanchuk í broddi fylkingar, en hann er reyndar þessa stundina aðeins í 17. sæti með sín 2744 stig.

minnka_ar_myndir_img_7041

Wesley So. Frá Filippseyjum til Bandaríkjanna. Og á hraðferð upp heimslistann.

Kínverski drekinn er svo sannarlega kominn á flug. Nú eru átta Kínverjar komnir á lista 100 bestu. Allt eru þetta ungir og metnaðarfullir skákmenn sem eiga mikið inni. Stigahæstur er hinn liðlega tvítugi Liren Ding með 2742 stig í 19. sæti.

Frakkar eiga nú sjö meistara á listanum. Fremstur er Maxime Vachier-Lagrave, sem er fæddur 1990 og kominn í 9. sætið með 2768 stig, og til alls líklegur í framtíðinni.

Hið fornfræga skákríki Ungverja á fimm meistara meðal þeirra bestu. Peter Leko, sá ólseigi jafnteflisjálkur, er í 22. sæti, en frægasti meistari Ungverja fyrr og síðar — skákdrottningin Judit Polgar — er nú í 65. sæti með 2676 stig og hefur oft verið hærri.

DSC_0221

Ungir snillingar. Hou Yifan er kominn á lista þeirra bestu og Caruano er líklegur til að verða helsti keppinautur Carlsens.

Þau sögulegu tíðindi urðu á nýja listanum að önnur kona bættist í hóp hundrað bestu: Heimsmeistarinn Hou Yifan, sem teflt hefur frábærlega að undanförnu og er komin með 2661 stig í 87. sæti. Hún mun vafalítið hafa sætaskipti við Polgar innan tíðar.

Tvö skáklönd eiga fjóra meistara á listanum: Armenía og England. Fremstur Armena er vitaskuld jöfurinn Aronian, sem er í 2. sæti með 2805 stig. Stigahæstur Englendinga, nú sem fyrr, er Michael Adams (f. 1971) sem er í 21. sæti með 2740 stig.

Sex lönd geta státað af þremur meisturum: Indland, Bandaríkin, Búlgaría, Holland og Azerbæjan.

Vishy Anand, sem síðar á árinu freistar þess að endurheimta krúnuna frá Carlsen, er kominn alla leið niður í 7. sæti og rúmlega 100 skákstig skilja hann og Carlsen.

nakamura

Nakamura. Mikill metnaður og miklir hæfileikar, en steinliggur alltaf fyrir Carlsen.

Fremstur Bandaríkjamanna er hinn kokhrausti Nakamura, sem nú er í 5. sæti, Búlgarar eiga sinn Topalov í 8. sæti og Hollendingar ungstirnið Anish Giri í 16. sætinu. Bestur Azera er hinn gamalreyndi Mammedyarov í 18. sæti.

Fjögur lönd eiga tvo á listanum: Kúba, Pólland, Tékkland og Þýskaland. Allt eru þetta gróin skáklönd með ríka hefð.

Tólf lönd eiga svo einn á lista — afhverju er Ísland ekki þarna? Noregur, Ítalía, Króatía, Georgía, Lettland, Úsbekistan, Spánn, Hvíta-Rússland, Perú, Slóvenía og Filippseyjar.

Hér verður reyndar að geta þess að Filippseyingar eru í þann veginn að missa sinn meistara, unga snillinginn Wesley So, yfir til Bandaríkjanna.

IMG_6786

Kínverjar eru í stórsókn. Einn af þeirra efnilegustu skákmönnum er Yu, sem hér er að tafli á N1 Reykjavíkurmótinu.

Og auðvitað ber að geta þess að fulltrúi Ítala á þessum lista er enginn annar en Fabiano Caruana, sem að flestra áliti verður skæðasti keppinautur Carlsens á næstu árum. Caruana er nú í 3. sæti en virðist líklegur til að hrinda Aronian úr 2. sæti strax á næsta lista.

Sitthvað fleira forvitnilegt kemur í ljós þegar rýnt er í listann yfir 100 stigahæstu skákmenn heims.

Alls eru 45 þeirra frá lýðveldum gömlu Sovétríkjanna.

Einn er frá Suður-Ameríku: Julio Granda Zuniga frá Perú, sem lætur fráleitt bilbug á sér finna þótt hann sé orðinn hálffimmtugur, og er nú í 84. sæti.

Enginn skákmeistari frá Afríku er á listanum. Það mun breytast á næstu árum. Mikil skákvakning er víða um álfuna, og eru Egyptar á góðri leið með að verða stórveldi í skák.

Þrettán eru frá Asíu (ef So er enn talinn til Filippseyinga). Hinir koma frá Kína (8), Indlandi (3) og Víetnam (1).

Og þá er kannski rétt að kíkja á aldurinn á þessu heiðursfólki.

Langflestir eru fæddir á milli 1981 og 1990 eða 57. Þetta er hin ríkjandi kynslóð í skákheiminum. Aronian er þannig fæddur 1982 og Carlsen 1990.

IMG_6830

Anish Giri, fæddur 1994, er ein bjartasta von skákheimsins. Hér nýtur hann aðstoðar Jóns Gnarr í upphafi N1 Reykjavíkurmótsins. Gunnar Björnsson forseti SÍ fylgist sposkur með.

Fjórðungur meistaranna er fæddur milli 1971 og 1980. Stigahæstir úr þessum aldurshópi eru Topalov og Kramnik, báðir fæddir 1975.

Aðeins sjö af meisturunum eru fæddir fyrir 1970. Þetta eru Anand (1969), Boris Gelfand (1968), Ivanchuk (1969), Nigel Short (1965), Granda Zuniga (1967), Dreev (1969) og Ilia Smirin (1968).

Gamla undrabarnið Nigel Short er sem sagt orðinn aldursforseti þeirra bestu!

En þá eigum við eiginlega bara eftir að kíkja á ungu stjörnurnar, skákmeistara sem fæddust 1991 eða síðar. Þar eru nöfnin sem við eigum eftir að heyra oft í framtíðinni.

Og þetta er glæsilegur listi: Fabiano Caruana, Wesley So, Anish Giri og Liren Ding eru allir komnir í hóp 20 bestu.

giri

Giri gantast við Jón G. Jónsson forstjóra Bankasýslunnar og Össur Skarphéðinsson félaga 125 í Hróknum.

Önnur ungstirni eru Liem Quang Le frá Víetnam (37. sæti), Richard Rapport frá Ungverjalandi (45. sæti), Maxim Matlakov frá Rússlandi (55. sæti), Vladimir Fedoseev frá Rússlandi (67. sæti), Yangyi Yu frá Kína (75. sæti), Hou Yifan frá Kína (87. sæti) og Sanan Sjugirov frá Rússlandi (93. sæti).

Af þessum efnilegustu skákmönnum heims eru þannig þrír frá Kína og Rússlandi.

Að lokum örlítil tölfræði til viðbótar. Meðalstig 100 bestu skákmanna heims eru nú 2702.

Árið 2000 voru meðalstig 100 bestu skákmannanna hinsvegar ,,aðeins“ 2644.

Þarna á svonefnd stigaverðbólga náttúrlega hlut að máli, en við skulum ekki gleyma því að sífellt fleiri og hæfileikaríkari snillingar koma fram á sjónarsviðið!

Sjá nánar:

100 stigahæstu á lista FIDE frá 1. ágúst 2014 

Facebook athugasemdir